fbpx

Hvað veldur deilum og hvernig leysum við þær?

Lilja Bjarnadóttir, stofnandi Sáttaleiðarinnar var gestur í þættinum Fólk með Sirrý í gær og var umræðuefnið m.a. af hverju við deilum og hvernig megi sætta fólk eða fyrirtæki. Hægt er að sjá upptöku af þættinum með því að smella hér.

Oft þegar við lendum í deilum eða ágreiningi er ástæðan sú að við höfum dregið ályktanir sem reynast ekki réttar. Við útskýrum eigin hegðun út frá aðstæðum en okkur er eðlislægt að útskýra hegðun annarra út frá persónueinkennum þeirra. Dæmi um þetta er þegar þú ert sein/n þá er það vegna þess að bíllinn þinn bilaði, það var umferðaróhapp eða eitthvað annað utanaðkomandi sem að olli því að þú varst sein/n. Ef hins vegar samstarfsfélagi þinn er seinn erum við oft fljót til þess að skrifa það á persónuleika hans, t.d. að þessi manneskja er alltaf sein því hún er svo óskipulögð / löt / gleymin o.s.frv. Við gleymum oft að spyrja út í aðstæðurnar og gefum okkur ályktanir sem síðan getur komið í ljós að eru rangar. Við þessar aðstæður hættir okkur kannski til að hafa minni þolinmæði gagnvart hinum aðilanum eða gefum honum ekki kost á að skýra mál sitt. Viðmót okkar veldur því þá að aðilinn bregst illa við og fer í vörn og þá er kominn ágreiningur sem getur auðveldlega stigmagnast ef ekki er tekið rétt á málunum.

Í slíkum aðstæðum er gott að muna að öll hegðun er rökrétt fyrir þeim sem hegðar sér (“All behavior is rational to the person behaving” Lee, 2014). Það er alltaf einhver ástæða fyrir gjörðum annarra og ef að við leggjum okkur fram við að spyrja spurninga og reynum að setja okkur í spor annarra þá erum við líklegri til þess að koma í veg fyrir næsta rifrildi eða ágreining.

Eitt af hlutverkum sáttamiðlara er að spyrja spurninga til þess að komast að kjarna ágreiningsins og hjálpa þannig aðilum að finna lausn á deilunni. Til þess að fræðast meira um hvernig sáttamiðlun getur nýst þínu fyrirtæki viljum við minna á að skráning á ráðstefnuna. Sáttamiðlun í viðskiptalífinu er í fullum gangi!

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Scroll to Top