Sáttamiðlun fyrir einstaklinga

Snertifletir sáttamiðlunar í ágreiningi milli einstaklinga eru fjölmargir, en hér eru nokkur dæmi um málaflokka þar sem sáttamiðlun nýtist vel. Hægt er að fara í sáttamiðlun í öllum þeim málaflokkum þar sem aðilar mega semja sjálfir um niðurstöðuna. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband og sjá hvort að það hentar fyrir þig að fara Sáttaleiðina.

Skilnaðarmál

Skilnaðir geta verið erfiðir og átakamiklir en með sáttamiðlun má nálgast ferlið á uppbyggilegan hátt. Hlutverk sáttamiðlara í skilnaðarmálum getur meðal annars verið að aðstoða hjón við skiptingu eigna, umgengni barna ef það á við og hvernig megi eiga uppbyggileg samskipti í framtíðinni.

Erfðamál

Erfðamál taka oft mikinn toll á fjölskyldur og aðkoma sáttamiðlara við skipti á dánarbúi getur auðveldað ferlið á slíkum álagstíma. Þegar fjölskyldur fara í gegnum sáttamiðlun til þess að leysa úr deilum sem upp koma við skiptin er líklegra að allir geti unað vel við sinn hluta og jafnvel varpað ljósi á það ef önnur undirliggjandi vandamál innan fjölskyldunnar eru ástæða þess að illa gengur að skipta dánarbúi.

Fasteignamál

Ef upp kemur ágreiningur eða deila við kaup og sölu fasteignar getur sáttamiðlun verið kjörinn vettvangur til þess að leysa úr deilunni með farsælum hætti. Aðilum gefst tækifæri til þess að leysa úr deilu sinni áður en hún stigmagnast eins og oft vill verða þegar dómsmál eru höfðuð, þar sem gerðar eru ítrustu kröfur. Þá er það ekki alltaf á færi allra að standa undir þeim kostnaði sem fylgir dómsmálum. Gallamál eru gott dæmi um þetta þar sem þau eru oft bæði kostnaðarsöm og tímafrek vegna matsgerða dómkvaddra matsmanna sem fela í sér mikinn kostnað.

Nágrannadeilur

Deilur á milli nágranna, t.d. um lóðamörk, bílastæði, umgengni eða hávaða, geta haft mikil áhrif á heimilislíf fólks. Oft eru málin einnig þess eðlis að aðilar veigra sér að leita til dómstóla vegna kostnaðar sem því fylgir en þurfa samt sem áður að fá úrlausn á málinu. Í slíkum tilvikum getur gagnast vel að fá hlutlausan aðila til þess að stýra umræðum og aðstoða aðila að finna bestu lausnina hverju sinni. Sáttamiðlun hefur þann kost umfram úrskurði eða dómsúrlausn að aðilar fá tækifæri til þess að móta sjálfir úrlausn málsins og eru því líklegri til þess að virða samkomulagið.

Undirbúningur fyrir sáttamiðlun

Áður en hægt er að hefja sáttamiðlun þurfa aðilar að vera sammála að fara þá leið, þar sem ferlið byggir á valfrjálsri þátttöku aðila. Fyrstu skrefin eru því að ræða við aðila og stinga upp á því að ágreiningur eða deila sé leyst með aðkomu sáttamiðlara. Meginreglan er að aðilar deili kostnaði við ferlið jafnt og því er mikilvægt að allir sjái hag af því að taka þátt í sáttamiðluninni, en að sjálfsögðu er hægt að semja um annað fyrirkomulag ef vilji er fyrir því.

Ef þú ert í þeirri stöðu að vilja leita aðstoðar sáttamiðlara en ert ekki viss hvort að hinn aðilinn vilji fara þá leið getur sáttamiðlari aðstoðað við að hafa samband við aðila og útskýra hvað felst í ferlinu.

Við hverju er að búast í sáttamiðlun?

Á fyrsta sáttamiðlunarfundi aðila fer sáttamiðlari yfir það hvernig sáttamiðlunarferlið fer fram, hvert hlutverk sitt og aðilanna sé. Farið er yfir siðareglur sáttamiðlara og aðilar skrifa undir samning um sáttamiðlun. Að því loknu er farið í upplýsingaöflun þar sem aðilar segja báðir (eða allir) sína hlið á málinu og þar koma þá fram þau atriði sem að nauðsynlegt er að ræða til þess að ná lausn í deilunni. Hér geta aðilar undirbúið sig með því að hugsa um það áður en mætt er á fundinn hvað er nauðsynlegt að komi fram (með það í huga að sáttamiðlari veit yfirleitt mjög lítið um deiluna fyrir fundinn). Jafnvel getur verið gott að skrifa niður þau atriði sem maður er hræddur um að gleyma og einnig að mæta með nauðsynleg gögn á sáttamiðlunarfundinn, ef það á við.

Áður en farið er að semja um lausnir aðstoðar sáttamiðari aðila við það að afhjúpa undirliggjandi ástæður ágreiningsins og hvaða hagsmunir það eru sem eru mikilvægastir fyrir aðila í samningaviðræðunum. Til undirbúnings má velta fyrir sér eftirfarandi spurningum, en alls ekki er nauðsynlegt að mæta með fullmótuð svör!

  • Hvaða útkomu ert þú að leitast eftir? Hvaða hagsmunir liggja að baki þeirri útkomu fyrir þig (af hverju skiptir þetta þig máli?)
  • Af hverju vilt þú leysa þetta mál?
  • Hver er staðan ef ekki tekst að finna lausn á ágreiningnum?
  • Hvaða spurningar er ég með sem gott væri að fá svör við á sáttamiðlunarfundi?

Mikilvægt er að mæta til leiks með opnum huga og forðast að draga þá ályktun að við vitum svörin, því oft kemur það í ljós í sáttamiðlun að ályktanir í samskiptum hafa verið byggðar á misskilningi sem hægt er að leiðrétta.