Vorið 2015 útskrifaðist ég með meistaragráðu (LL.M.) í lausn deilumála (e. dispute resolution) frá University of Missouri í Bandaríkjunum. Samningatækni hefur lengi verið mér hugleikin og var það kveikjan að framhaldsnámi á þessu sviði en námið opnaði einnig nýjar leiðir og þegar út var komið kolféll ég fyrir sáttamiðlun (e. mediation). Sáttamiðlun byggir að miklu leyti á samningatækni og hefur verið talað um það sem „assisted negotiation“ þ.e. sáttamiðlarinn hjálpar öðrum að semja og leysa úr ágreiningi eða deilum. Þetta heillaði mig mjög og samhliða náminu sótti ég námskeið til að öðlast réttindi sem sáttamiðlari í Missouri-fylki og fann strax að þetta væri eitthvað sem ég myndi vilja gera í framtíðinni, að hjálpa fólki að leysa úr deilum á uppbyggilegan hátt og nota þannig hæfileika mína til góðs.
Lokaverkefni mitt fjallaði um hvernig mætti kynna og innleiða sáttamiðlun á vinnustöðum og í vinnudeilum á Íslandi (e. The introduction and implementation of Workplace Mediation in Iceland). Við rannsóknarstörf í náminu komst ég að því hversu lítið sáttamiðlun er notuð á Íslandi og því meira sem ég hugsaði um það því mikilvægara fannst mér að kynna sáttamiðlun frekar á sem flestum sviðum samfélagsins. Því varð úr að Sáttaleiðin var stofnuð þann 6. júlí 2015 og vil ég notað tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa hjálpað mér að láta þennan draum verða að veruleika.
Ég vona að þessi heimasíða muni gagnast þeim sem hingað rata til að læra meira um sáttamiðlun og kynna sér þá þjónustu sem Sáttaleiðin býður upp á.
Lilja Bjarnadóttir, LL.M.
Sáttamiðlari