Hvað er sáttamiðlun?

Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreiningi, sem aðilar taka sjálfviljugir þátt í, tveir eða fleiri, í trúnaði, og með hjálp óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins, sem þeir meta viðunandi fyrir báða aðila, gegnum skipulagt og mótað ferli.

Hugmyndafræði sáttamiðlunar byggir á því að deiluaðilar eru sérfræðingarnir í sinni deilu og eru því best til fallnir að leysa vandann með hjálp hlutlauss sáttamiðlara.

Markmið Sáttaleiðarinnar er að finna lausn sem endist til þess að koma í veg fyrir að deilur eða ágreiningur stigmagnist, vindi upp á sig og fari fyrir dómstóla án þess að aðilar hafi í raun og veru viljað fara þá leið. Þjónusta Sáttaleiðarinnar er sérsniðin að þínum þörfum, með áherslu á að leysa málin saman.

Hafðu samband ef þú vilt fara Sáttaleiðina.

Kostir sáttamiðlunar

Sáttamiðlunarferlið er fljótvirkt og getur sparað umtalsverðan tíma í samanburði við mál sem þurfa að bíða úrlausnar dómstóla. Auk þess að spara tíma getur sáttamiðlun einnig dregið úr kostnaði aðila, þar sem þeir deila kostnaði sáttamiðlarans í stað þess að báðir greiði fyrir lögmannsþjónustu.

Sáttamiðlari getur veitt aðilum ráðgjöf í því hvernig bæta megi samskiptin í framtíðinni til þess að koma í veg fyrir að samskonar ágreiningur endurtaki sig. Í sáttamiðlun er lögð áhersla á heiðarleika og opin samskipti. Aðilar fá tækifæri til þess að móta lausn málsins og segja sína hlið. Þannig er hægt að komast að niðurstöðu sem er viðunandi fyrir báða aðila og gætir að virðingu beggja. Þá eru jafnframt meiri líkur á því að lausnin endist.

Hvort sem um er að ræða viðskiptasamband eða vinnusamband býður sáttamiðlun upp á möguleikann á að leysa ágreining í sameiningu þannig að báðir geti staðið uppi sem sigurvegarar og þannig varðveitt langtímasamband sín á milli.

Sáttamiðlun getur veitt aðilum svigrúm til þess að sníða lausn málsins að sameiginlegum þörfum sínum og hafa þannig möguleika á því að semja um niðurstöðu sem ekki hefði verið möguleg (eða ólíkleg) fyrir dómstólum.

Sáttamiðlun fer fram í trúnaði milli þeirra sem taka þátt í ferlinu og getur því verið ákjósanleg leið ef ágreiningsefnið er viðkvæmt eða þess eðlis að niðurstaða dómsmáls myndi ekki fullnægja væntingum aðila. Oft er það svo að það sem aðilar raunverulega vilja er að það sé hlustað á það sem þeir hafa að segja, eða jafnvel afsökunarbeiðni. Markmið sáttamiðlunar er að komast að því hver er raunveruleg ástæða ágreiningsins og vinna í lausn á henni.

Sáttamiðlun fyrir viðskiptalífið

Sáttaleiðin sérhæfir sig í sáttamiðlun í viðskiptalífinu, en hér má sjá dæmi um málaflokka þar sem nýta má sáttamiðlun til þess að leysa úr ágreinings- og deilumálum. Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að deilur stigmagnist, t.d. með því að leysa málin áður en þau fara fyrir dómstóla. Þegar sáttamiðlun er notuð við slíkar aðstæður er um að ræða utanréttarsáttir, en ef mál sem hefur verið höfðað fyrir dómstólum fer í sáttamiðlun og er leyst þannig er um að ræða réttarsátt.

Sáttamiðlun fyrir einstaklinga

Snertifletir sáttamiðlunar í ágreiningi milli einstaklinga eru fjölmargir, en hér eru nokkur dæmi um málaflokka þar sem sáttamiðlun nýtist vel. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband og sjá hvort að það hentar fyrir þig að fara Sáttaleiðina.

Deilur á milli nágranna, t.d. um lóðamörk, bílastæði, umgengni eða hávaða, geta haft mikil áhrif á heimilislíf fólks. Oft eru málin einnig þess eðlis að aðilar veigra sér að leita til dómstóla vegna kostnaðar sem því fylgir en þurfa samt sem áður að fá úrlausn á málinu. Í slíkum tilvikum getur gagnast vel að fá hlutlausan aðila til þess að stýra umræðum og aðstoða aðila að finna bestu lausnina hverju sinni. Sáttamiðlun hefur þann kost umfram úrskurði eða dómsúrlausn að aðilar fá tækifæri til þess að móta sjálfir úrlausn málsins og eru því líklegri til þess að virða samkomulagið.

Ef upp kemur ágreiningur eða deila við kaup og sölu fasteignar getur sáttamiðlun verið kjörinn vettvangur til þess að leysa úr deilunni með farsælum hætti. Aðilum gefst tækifæri til þess að leysa úr deilu sinni áður en hún stigmagnast eins og oft vill verða þegar dómsmál eru höfðuð, þar sem gerðar eru ítrustu kröfur. Þá er það ekki alltaf á færi allra að standa undir þeim kostnaði sem fylgir dómsmálum. Gallamál eru gott dæmi um þetta þar sem þau eru oft bæði kostnaðarsöm og tímafrek vegna matsgerða dómkvaddra matsmanna sem fela í sér mikinn kostnað.

Erfðamál taka oft mikinn toll á fjölskyldur og aðkoma sáttamiðlara við skipti á dánarbúi getur auðveldað ferlið á slíkum álagstíma. Þegar fjölskyldur fara í gegnum sáttamiðlun til þess að leysa úr deilum sem upp koma við skiptin er líklegra að allir geti unað vel við sinn hluta og jafnvel varpað ljósi á það ef önnur undirliggjandi vandamál innan fjölskyldunnar eru ástæða þess að illa gengur að skipta dánarbúi.

Skilnaðir geta verið erfiðir og átakamiklir en með sáttamiðlun má nálgast ferlið á uppbyggilegan hátt. Hlutverk sáttamiðlara í skilnaðarmálum er að aðstoða hjón við skiptingu eigna, umgengni barna ef það á við og hvernig megi eiga uppbyggileg samskipti í framtíðinni.