Það er ekki hlutverk sáttamiðlara að jafna út allt valdaójafnvægi. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og við vitum líka að það er eðlilegt og æskilegt að valdaskipting sé ekki alltaf jöfn. Við gerum ráð fyrir því að þeir sem beri meiri ábyrgð hafi einnig meira vald í samfélaginu, til dæmis hefur yfirmaður meira vald en almennur starfsmaður og foreldrar ráða meiru á heimilinu en börnin sín.Hvert er þá hlutverk sáttamiðlarans þegar upp kemur valdaójafnvægi milli aðila? Mín skoðun er sú að það sé ekki hlutverk sáttamiðlara að jafna út valdamuninn heldur að hjálpa aðilum í gegnum sáttamiðlunarferlið og skapa aðstæður til þess að hægt sé að vinna að friðsamlegri úrlausn málsins, þannig að aðilar geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir um málefnið sem verið er að semja um í sáttamiðlun.
Stóra spurningin er: Hefur valdaójafnvægið í þessum aðstæðum áhrif á frelsi einstaklings til þess að semja um niðurstöðuna?
- Hlustun. Birtingarmynd valdaójafnvægis getur verið yfirgangur annars aðilans í samskiptum, en í slíkum aðstæðum getur sáttamiðlarinn notað samskiptahæfni til þess að grípa inn í aðstæður. Hlustun skiptir þar miklu máli, með því að hlusta á þann aðila sem ekki hefur fengið eins mikið tækifæri á að tjá sig er sáttamiðlarinn í raun að sýna sína virðingu sem kemur sem mótvægi við virðingarleysi gagnaðila.
- Spyrja spurninga t.d. til þess að jafna upplýsingaflæði milli aðila eða grípa inní með spurningum til þess að halda samræðunum á réttum farvegi.
- Stjórna dagskránni. Sáttamiðlari getur stjórnað dagskránni og séð til þess að öll málefni sem aðilar vilja ræða séu tekin fyrir, en ekki láta “sterkari” aðilann stjórna dagskránni.
- Fara í gegnum hlutverkaleiki á ímynduðum dæmum. T.d. er hægt að gera þetta í eintali og undirbúa aðila með því að spyrja hann hvað hann myndi gera eða segja ef ákveðnar aðstæður kæm upp. Með slíkum undirbúningi styrkir sáttamiðlarinn sjálfsákvörðunarrétt aðilans.
- Kanna raunverulegar þarfir einstaklingsins til þess að hann átti sig á því hvað hann raunverulega vill, sem er nauðsynlegt fyrir aðila að vita til þess að geta tekið sjálfstæða ákvörðun.
- Einnig eru önnur atriði sem tengjast ferlinu sem geta hjálpað, t.d. að sáttamiðlunin sé haldin á hlutlausum stað.
- Að lokum má segja að ef ljóst er að aðili getur ekki tekið sjálfstæða ákvörðun í sáttaferlinu getur verið eina úrræði sáttamanns að slíta sáttamiðluninni, því engin sátt getur verið betri en slæm sátt.