fbpx

Sáttamiðlun í fasteignamálum

Í dag hélt ég ásamt Hafsteini Gunnari Hafsteinssyni, varaformanni Sáttar, námskeið um Sáttamiðlun í fasteignamálum fyrir Félag fasteignasala, sem boðið var uppá sem hluta af símenntun Félags fasteignasala. Um var að ræða tveggja tíma námskeið sem fól m.a. í sér kynningu á sáttamiðlun og aðferðafræði hennar, hvernig dæmigert sáttamiðlunarferli líti út og hvaða atriði það eru sem ber helst að varast til þess að halda trausti aðila út ferlið.

Ég fjallaði m.a. um fjölmarga kosti þess að nýta sáttamiðlun til þess að leysa ágreinings- og deilumál sem upp geta komið í fasteignaviðskiptum, þá sérstaklega hve mikinn tíma það sparar að grípa snemma inn í taumana í stað þess að forðast að takast á við ágreininginn. Einnig fellur aðferðafræði sáttamiðlunar mjög vel að hlutverki fasteignasala, þar sem þeim ber skv. lögum að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda og getur skipt sköpum að vera lausnamiðaður í hugsun og góður í samskiptum þegar upp koma ágreiningsmál.

Farið var yfir nokkur verkfæri í verkfærakistu sáttamiðlarans og meðal annars rætt um mikilvægi hlustunar í samskiptum. Meðal annars var sýnt myndband af TED Talk með William Ury sem heitir The Power of Listening– og ég mæli við eindregið með að fólk gefi sér 15 mínútur til þess að horfa á það!

Hafsteinn fjallaði m.a. um hlutverk og skyldur sáttamiðlara og mikilvægi þess að virða trúnað, að sýna hlutleysi og óhlutdrægni í orðum og gjörðum.

Eitt af markmiðum Sáttar er einmitt að standa að kynningu á kenningum og aðferðum sáttamiðlunar og er ánægjulegt að fá það tækifæri fyrir svona stórum og flottum hópi eins og þeim sem sótti námskeiðið í dag, en yfir 100 félagsmenn sátu námskeiðið í sal Endurmenntunar Háskóla Íslands.

Fyrir hönd okkar Hafsteins þakka ég fyrir góðar viðtökur og fagna þeim mikla áhuga sem fasteignasalar hafa sýnt aðferðum sáttamiðlunar!

Sáttakveðja,

Lilja

Scroll to Top