fbpx

Kveikjum á spurningaflæðinu!

Í samningaviðræðum verður oft pattstaða þegar aðilar eru hræddir við að deila upplýsingum eða segja hvað það er sem þeir raunverulega þurfa, af ótta við að mótaðili þeirra í samningaviðræðum gæti notfært sér það eða séð það sem veikleika. Margt getur spilað inn í sem takmarkar nauðsynlegt upplýsingaflæði, sem leiðir þá til þess að aðilar ná ekki samkomulagi, þrátt fyrir að þeir myndu báðir hagnast á því að semja. Þar sem sáttamiðlari er hlutlaus þriðji aðili fær hann oft meiri upplýsingar en aðilar eru tilbúnir að deila hvor með öðrum og getur þá hjálpað aðilum að finna lausn sem báðir aðilar eru sáttir við. Þetta er ástæðan fyrir því að oft er hægt að finna lausn í sáttamiðlun sem ekki myndi nást í samningaviðræðum.

En þessi upplýsingagjöf fer aldrei fram nema við spyrjum réttu spurninganna. Og til þess að finna “réttu spurningarnar” þá verðum við líka að spyrja fullt af spurningum. Verum óhrædd við að kveikja á spurningaflæðinu! Starfsmaður sem ekki þorir að spyrja um ráð af ótta við að vera dæmdur vanhæfur eða vitlaus getur eytt miklum tíma í óvissu eða hreinlega gert afdrifarík mistök. Á sama tíma gæti yfirmaðurinn bölvað því að starfsfólkið komi ekki fyrr með spurningar til sín ef eitthvað er óljóst…

Yfirleitt er best að notast við opnar spurningar til þess að fá sem mestar upplýsingar. Ef það á að skilgreina ákveðið verkefni gætu spurningar t.d. verið eitthvað á þessa leið: 

Hvað þarf að gera?

Hver á að gera það?

Hvernig á að vinna þetta verkefni?

Hvers vegna notum við þess aðferð?

Hvenær þarf verkfnið að vera búið?

Þetta eru allt augljósar spurningar, en það er alveg merkilega oft sem við förum ekki nægilega vel í gegnum þessi atriði… Ef þú ert aðilinn sem útdeilir verkefnum þá er líklegt að þér finnist þetta allt vera atriði sem séu á hreinu, en það er ótrúlegt hvað við getum komið í veg fyrir mikið af ágreiningsmálum með því að spyrja þann sem tekur við verkefninu hvernig hann skildi umfangið  Fáðu viðkomandi til þess að endurtaka það sem þú varst að segja til þess að vera viss um að það sé enginn vafi. Ef þú ert aðilinn sem tekur við verkefnum er líka gott að venja sig á að taka saman helstu atriðin og endurtaka þau til þess að vera viss um að þú hafir náð öllu, t.d. með því að segja “Er það rétt skilið hjá mér að….”

Ef þér finnst óþægilegt eða erfitt að koma með spurningar, hafðu þá þetta í huga:

  • Spurningar eru besta leiðin til þess að fá upplýsingar og forðast misskilning
  • Þú getur nýtt spurningar til þess að sýna virka hlustun og þannig sýnt manneskjunni sem þú ert að tala við einlægan áhuga.
  • Það er merki um hugrekki að spyrja
  • Það eru engar heimskulegar spurningar
  • Ef þú ert í vafa – spurðu!
Scroll to Top