fbpx

Hægjum á okkur!

Hraðinn í samskiptum er sífellt að aukast í nútímasamfélagi, enda leggjum við mikla áherslu á að spara tíma og láta hlutina ganga sem hraðast fyrir sig. Við viljum koma sem mestum upplýsingum til skila á sem skemmstum tíma. Það er til dæmis oft fljótlegra að senda tölvupóst eða sms heldur en að hringja. Vandamálið myndast þegar við flýtum okkur of mikið þannig að það vanti skýrara samhengi og við missum persónulegu hliðina á samskiptum.

7 / 38 / 55

Þegar við túlkum samskipti horfum við á þrjá þætti; hvað er sagt (orðin sem notuð eru) og svo hvernig það er sagt (bæði raddbeiting og líkamstjáning). Þegar þú ert að meta hvort aðili sé að segja satt eru orðin einungis 7% af heildarmyndinni! Hin 93% skiptast á milli raddbeitingar (38%) og líkamstjáningar (55%). Þegar við notum tölvupóst til samskipta þá vantar bæði röddina og líkamstjáninguna og við þurfum því að leggja hana til sjálf, annað hvort út frá fyrri samskiptum okkar við aðilann eða annarri reynslu sem mótað hefur samskipti okkar í gegnum tíðina. Áherslur og raddbeiting geta algjörlega breytt skilaboðum, eins og sjá má á þessu dæmi hér:

Jæja, ertu ekki að koma? (lesist á jákvæðan og bjartan hátt)…

Jæja, ertu ekki að koma? (lesist á neikvæðan og mjög svo pirraðan hátt)…

Án samhengisins er meiningin háð því hvernig lesandinn kýs að túlka orðin, sem getur verið allt önnur en ætlað var. Þegar persónulegar tengingar vantar og okkur skortir samhengi aukast líkurnar á því að það verði misskilningur sem leitt getur til ágreinings. Það er því vel þess virði að hægja á sér og gefa sér þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að vera viss um að skilaboðin hafi verið móttekin á þann hátt sem ætlað var.

Kostir þess að hægja á sér þegar kemur að samskiptum eru fjölmargir:

  • Þú virkar yfirvegaðri og punktarnir komast betur til skila
  • Það minnkar stress
  • Minni hætta er á misskilningi í samskiptum
  • Bætir tengslin milli einstaklinga, en tengsl við annað fólk eru nauðsynleg til þess að geta upplifað hamingju.

Hægjum okkur og tökum tíma til þess að tengjast og njóta þeirra samtala sem við eigum í dag.

Kærleikskveðja,

Lilja

Scroll to Top