fbpx

Af hverju virkar sáttamiðlun?

 Sáttamiðlun sem fræðigrein

Til þess að skilja betur ávinning sáttamiðlunar er gott að glöggva sig á staðsetningu sáttamiðlunar sem fræðigrein við lausn deilumála (sem á ensku er vísað til sem dispute resolution) og rifja upp skilgreiningu sáttamiðlunar:

Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreinings þar sem sáttamiðlari, sem er hlutlaus þriðji aðili, aðstoðar aðila við að finna lausn sem báðir aðilar eru sáttir við. Sáttamiðlun er valkvætt ferli sem byggir á þeirri hugmyndafræði að aðilar eru sérfræðingar í sinni deilu og þar af leiðandi best fallnir til þess að finna lausn sem hentar þeim.

Þegar kemur að því að leysa deilumál eru samningaviðræður (e. negotiation) milli aðila yfirleitt fyrsta úrræðið, og felur það í sér mestan sveigjanleika enda er ákvörðunarvald aðilanna algjörlega hjá þeim. Sáttamiðlun (e. mediation) felur einnig í sér samningaviðræður sem fara fram með hjálp óháðs aðila sem aðstoðar aðila að semja um úrlausnina. Sáttamiðlunarferlið er því ekki alveg eins sveigjanlegt og þegar um er að ræða óformlegar samningaviðræður milli tveggja aðila, en aðilar geta þó haft áhrif á það hvernig sáttamiðlunarferlið fer fram og hafa enn fullt ákvörðunarvald um niðurstöðu málsins. Aðrar leiðir til úrlausnar deilumála eru svo gerðardómur (e. arbitration), þar sem aðilar semja um það sín á milli að velja gerðardómara sem skera mun úr um úrlausn ágreinings ef þörf krefur. Úrskurður gerðardóms er endanlegur og ekki hægt að áfrýja honum nema í afar takmörkuðum tilfellum. Aðilar hafa því ekki sama ákvörðunarvald og í sáttamiðlun þar sem utanaðkomandi aðili kemst að niðurstöðu fyrir hönd aðilanna og er hún bindandi. Úrlausn gerðardómstóls er yfirleitt fljótlegri heldur en hin almenna dómstólaleið (e. litigation) og er m.a. oft notuð í alþjóðaviðskiptum. Kostir gerðardóms umfram almenna dómstóla eru t.d. að ferlið er trúnaðarmál og aðilar geta samið fyrirfram um staðsetningu gerðardómsins, haft áhrif á það hver verður gerðardómari og ýmis önnur atriði er snúa að málsmeðferð.

Hvers vegna að velja sáttamiðlun?

Við mat á því hvort sáttamiðlun sé hentugur kostur í stöðunni er gott að kynna sér hverjir kostirnir eru við að fara sáttaleiðina með aðstoð sáttamiðlara. Þó að ekki sé hægt að ábyrgjast niðurstöður sáttamiðlunar, þar sem útkoman er eðli málsins samkvæmt alltaf undir aðilunum komið eru kostir sáttamiðlunar margvíslegir og má almennt segja að eftirfarandi atriði einkenni sáttamiðlunarferlið:

  • Hagkvæmni. Sáttamiðlun er hagkvæmur kostur við lausn ágreiningsmála, sem kostar yfirleitt mun minna en aðrar leiðir til úrlausnar, sérstaklega í samanburði við dómstólaleiðina.
  • Hraðari úrlausn. Það tekur oft langan tíma að fá endanlega niðurstöðu fyrir dómstólum og því getur sáttamiðlun verið hentugur kostur þegar báðir aðilar hafa hagsmuni af því að fá úrlausn sem fyrst.
  • Gagnkvæm ánægja með niðurstöðuna. Aðilar eru yfirleitt ánægðari með lausn málsins þegar þeir hafa fengið tækifæri til þess að móta niðurstöðuna í sameiningu, í stað þess að þriðji aðili (dómari) hafi ákvörðunarvaldið. Báðir aðilar geta staðið uppi sem sigurvegarar.
  • Fólk virðir og fylgir niðurstöðu málsins. Þegar aðilar hafa fengið tækifæri til þess að semja sjálfir um niðurstöðu málsins eru þeir líka líklegri til þess að virða skilyrði samkomulagsins heldur en ef utanaðkomandi aðili tekur ákvörðunina. (Það er jú auðveldara að framkvæma það sem maður ákveður sjálfur að gera heldur en þegar einhver skipar manni að gera það.)
  • Samkomulag um sátt er sérsniðið að þörfum aðila. Sátt aðilanna getur náð bæði yfir lagaleg atriði sem dómstóll hefði tekið fyrir, en getur einnig náð til atriða sem að ekki hefði verið hægt að sætta fyrir dómstólum, eins og ákveðnar samskiptareglur. Í sáttamiðlunarferlinu gefst fólki t.d. tækifæri á að gefa og þiggja afsökunarbeiðni sem að ekki hefði fengist fyrir dómstólum og geta aðilar þannig sérsniðið samkomulagið að sínum þörfum og m.a. samið um fleiri atriði heldur en hægt er að sækja fyrir rétti, svo lengi sem þau atriði eru á þeirra málsforræði.
  • Meiri stjórn á ferlinu og fyrirsjáanlegri niðurstaða. Aðilar sem að taka sjálfir þátt í að semja um sátt í sáttamiðlun hafa meiri stjórn á því hver niðurstaða málsins verður heldur en ef að mál fara fyrir dómstóla þar sem það eru ákveðnar líkur á tapi eða sigri. Það að samþykkja að fara í sáttamiðlun þýðir ekki að fólk verði að samþykkja ákveðna málamiðlun. Sátt er aðeins náð ef báðir aðilar samþykkja hana og því eru afleiðingar sáttarinnar fyrirsjáanlegri heldur en áhættan sem aðilar taka ef dómsúrskurður fellur þeim í óhag.
  • Sjálfsefling. Þegar fólk semur sjálft um niðurstöðuna hefur það meiri stjórn á útkomunni og lætur ekki frá sér sama vald og ef að annar aðili, svo sem lögmaður, fer með málið fyrir þeirra hönd. Sáttamiðlunarferlið felur einnig í sér ákveðið lærdómsferli fyrir aðilana sem getur aukið samskiptafærni þeirra og áhrif.
  • Áframhaldandi samskipti auðveldari. Hvort sem sáttamiðlun er komin til vegna þess að fólk vill varðveita sambandið (t.d. viðskiptasambönd) eða aðstæður eru þannig að það er verið að slíta sambandi (t.d. starfslok eða skilnaðir) þá er gott að geta áfram átt góð samskipti, sérstaklega á lítilli eyju eins og Íslandi. Sáttamiðlun gefur fólki tækifæri á að varðveita sambandið með því að ræða málin og taka tillit til hagsmuna beggja aðila. Þetta getur komið í veg fyrir að deilumál komi upp síðar þar sem báðir aðilar hafa fengið tækifæri til þess að segja það sem þeim býr í brjósti og að hlustað sé á þá. Slík lok á sambandi gera erfiðar aðstæður auðveldari til lengri tíma litið.
  • Raunhæf og framkvæmanleg sátt. Þar sem aðilar fá tækifæri til þess að semja um niðurstöðu málsins ætti sátt aðila að geta náð yfir smáatriði sem nauðsynlegt er að semja um til þess að tryggja að niðurstaðan sé raunhæf og framkvæmanleg. Hægt er að sérsníða sáttina að þörfum aðila í hverju máli fyrir sig, sem að veitir aðilum meiri sveigjanleika. Einnig er algengt að samið sé um eftirfylgni sáttarinnar til þess að tryggja að samkomulagið haldi og að báðir aðilar sjái sér áframhaldandi hag að því að virða niðurstöðu sáttamiðlunarinnar.
  • Sátt getur verið betri en einföld málamiðlun eða “Allt-eða-Ekkert” niðurstaða. Sáttamiðlun gengur út á að hjálpa aðilum að eiga í lausnamiðuðum samningaviðræðum þar sem markmiðið er að ná fram sátt sem tekur mið af hagsmunum beggja, og oft er hægt að finna lausn sem er betri fyrir báða aðila heldur en einföld málamiðlun. Einfalt dæmi um lausnamiðaða nálgun er þegar tveir aðilar vilja sömu appelsínuna, en annar vill borða hana en hinn ætlar að nota börkinn í bakstur. Hér er til betri lausn heldur en málamiðlun (þar sem báðir fá bara hálfa appelsínu) en hún fæst með því að horfa á undirliggjandi þarfir aðila (af hverju viltu fá appelsínuna?) og þannig er hægt að finna lausn sem fullnægir þörfum beggja aðila betur. [Heimild: Benefits of Mediation á vefnum Mediate.com.]

Árangur í sáttamiðlun er alltaf undir aðilum kominn og alfarið á þeirra forræði hvort að niðurstaða fæst í sáttamiðlun eða ekki. Það er því til mikils að vinna að fá báða aðila að samningaborðinu og láta á það reyna hvort hægt sé að finna friðsamlega úrlausn á deilunni án þess að brenna að baki sér brýr líkt og oft er raunin þegar kemur að lögsóknum. Jafnvel þó sáttamiðlun leiði ekki til samkomulags þá veitir hún aðilum tækifæri til þess að öðlast dýpri skilning á deilumálinu, sem getur verið mikils virði og jafnvel sparað aðilum tíma og fjármuni þrátt fyrir að málið fari áfram fyrir dómstóla. Að lokum ber að nefna að aðilar útiloka ekki nein önnur úrræði til lausnar á deilunni (svo sem að fara fyrir dómstóla síðar) þrátt fyrir að hafa farið í sáttamiðlun og því er til mikils að vinna að kanna möguleikann á að því hvort sáttamiðlun geti hentað áður en gripið er til annarra úrræða.

Til þess að sáttamiðlun sé raunhæfur kostur þegar kemur að því að leysa deilumál er mikilvægt að aðilar skilji hvað felst í sáttamiðlunarferlinu og hvernig það virkar, enda er skiljanlegt að fólk sé hikandi við að taka þátt í sáttamiðlun ef það hefur enga reynslu af því. Sáttaleiðin býður uppá fræðslu á sviði sáttamiðlunar og tekur fagnandi við fyrirspurnum þeirra sem hafa áhuga á að nýta sér þessa leið eða vilja kanna möguleika á innleiðingu sáttamiðlunar, t.d. hjá fyrirtækjum. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast frekar um sáttamiðlunarferlið er vakin athygli á námskeiði sem Sátt, félag um sáttamiðlun stendur fyrir þann 27. apríl næstkomandi.

 

Scroll to Top