fbpx

Áhrif alhæfinga í ágreiningi

Alhæfingar eru algjört eitur þegar kemur að ágreiningi, en vandamálið er að oft alhæfum við án þess að gera okkur grein fyrir því og áhrifum þess á viðmælanda okkar. Alhæfingar einkennast af „allt-eða-ekkert“ viðhorfi og valkostir eru settir fram sem annaðhvort – eða.

Þetta geta verið setningar eins og „Hún svarar mér aldrei“ eða „Hann ræður ekki við breytingar“. Alhæfingar stilla fólki upp við vegg og leiða til þess að það fer í vörn til þess að bjarga ímynd sinni. Áhrifin eru að hin raunverulegu skilaboð komast ekki til skila og samskiptin verða stirðari. Til þess að bregðast við alhæfingum er gott að velta fyrir sér hvort innistæða sé fyrir þeim við nánari skoðun: Færðu aldrei svar við neinu eða er það kannski mismunandi eftir því hvert efnið er? Er hann ófær um að ráða við allar breytingar eða ræður hann ekki við breytingar sem hann er ósammála?

Leiðir til lausna
Þegar við erum viðtakandinn er fyrsta skrefið að átta sig á því að um alhæfingu sé að ræða. Ein leið getur verið að umorða og spyrja hvort þú hafir skilið staðhæfinguna rétt („Bíddu, áttu við að ég komi aldrei fram við þig af virðingu?“). Til þess að forðast sjálf að nota alhæfingar er gott að sleppa orðunum alltaf og aldrei og með því að fylgja þessu ferli:

1. Lýsum staðreyndum út frá okkar upplifun (t.d. hvað þú sást eða heyrðir) en á hlutlausan hátt. Varastu að koma með eigin ályktanir um það hvað veldur hegðuninni.
2. Hvaða áhrif hegðunin hefur á þig og hvaða tilfinningar það vekur hjá þér.
3. Beiðnin er næst, sem yfirleitt væri „Getum við talað um þetta“ eða biðjum aðilann um að hjálpa okkur að skilja betur sína hlið.

Það er freistandi að koma strax með lausnina, en þá eigum við á hættu að draga ályktanir sem leiða til misskilnings og frekari ágreinings. Lausnin felst í því að ná fram samvinnu milli aðila – án þess að stilla þeim upp við vegg.

Grein þessi birtist fyrst í Markaðinum – sjá einnig: http://www.visir.is/g/2017171219647/ahrif-alhaefinga-i-agreiningi- 

Scroll to Top