Sáttamiðlun fyrir fyrirtæki kallar oft á það að leysa ágreining innan hópa, en slíkt mál kom upp hjá mér nýverið og greip ég þá í gamla skólabók sem heitir Group dynamics eftir Donelson R. Forsyth. Þar er sérstakur kafli um ágreining (13. kafli) og er þar fjallað um rætur ágreinings, stigmögnun ágreinings og lausn ágreinings innan hópa.
Að leysa öll vandamál hefst með skilningi á því hvert vandamálið er, og því er pistill þessarar viku tileinkaður því að skilja betur fyrstu tegund ágreinings innan hópa: Samkeppni og þegar löngunin að vinna leiðir til ágreinings. Fjallað verður um hinar fjórar tegundir ágreinings innan hópa í komandi pistlum.
Hópar af öllum stærðum og gerðum upplifa tímabil þar sem upp kemur ósætti, rígur eða núningur. Ágreiningur í hóp er þegar aðgerðir eða skoðanir eins eða fleiri meðlima hópsins eru óásættanlegar eða mæta andstöðu eins eða fleiri aðila í hópnum. Hringrás ágreinings fer frá því að vera venjuleg samskipti yfir í að vera ósammála, þar næst rís ágreiningur, hann stigmagnast en eftir að ágreiningur nær hámarki kemur hjöðnun ágreinings (conflict de-escalation) og þar næst lausn ágreiningsins. Hringrásin lokast síðan með því að hlutirnir fara aftur í venjuleg samskipti.
Samvinna og samkeppni
Fólk í hópum er háð hvort öðru að vissu marki á gagnkvæman hátt og árangur þeirra er samtengdur. Í sumum hópum eru þessi tengsl byggð á samvinnu, þar sem árangur eins aðila í hópnum eykur líkur á árangri hjá öðrum meðlimum sem virkar hvetjandi. Í öðrum aðstæðum er um að ræða samkeppni, þar sem sigur eins aðila þýðir tap annars og virkar þá gagnkvæmnin á letjandi hátt.
Samvinna og samkeppni vekja hjá okkur mismunandi hvatir. Samvinna með öðrum hvetur til samnýtingar, trausts og samstarfs frekar en eigingirni, grundsemdar eða aðskilnaðar. Fólk lýsir þessum aðstæðum í hóp þar sem byggt er á samvinnu sem vinalegum og ánægjulegum þar sem því líður vel og er óheft í slíkum aðstæðum. Fólk er þá líklegra til þess að nota jákvætt orðalag og ræða sameiginlega hagsmuni. Samkeppni aftur á móti leiðir til þess að fólk leggur meiri áherslu á persónuleg markmið. Fólk er hins vegar í samkeppni við aðra og er því líklegri til þess að leiða til ágreinings. Í keppnisumhverfi er fólk ekki stolt af afrekum annarra, því í hvert skipti sem einhver annar í hópnum kemst áfram, minnkar það sem er eftir fyrir hina. Samkeppni leiðir einnig til hærra stigs græðgi og ótta.
Fæstar aðstæður eru þó þannig að einungis annað þessara atriða eigi við. Í flestum aðstæðum erum við hvatt áfram af blöndu af samvinnu og samkeppni. Sú aðferð sem rannsakendur hafa beitt til þess að skoða aðstæður þar sem sambland af þessum hvötum er ríkjandi er fangaklemman (prisoner‘s dilemma game). Til eru margar mismunandi útgáfur af leiknum en sem dæmi má horfa á þessa töflu hér.
Hér er hvatinn til þess að fara í samkeppni við hinn sterkur, þar sem það getur gefið þér bestu útkomuna, en aðeins ef hinn sýnir samvinnu. Ef báðir keppa tapa báðir. Hvað velur fólk í þessum aðstæðum? Sumir keppa á meðan aðrir sýna samvinnu. Þetta fer eftir sambandi á milli aðilanna, þeirra væntingum um hvað hinn muni gera og persónuleika, ásamt fleiri þáttum. Rannsakendur hafa prófað þetta í mörgum útkomum, og þá oft sett fram sem skipting á fjármunum. Ef báðir velja X er fjárhæð skipt jafnt, ef þú velur X og hinn Y færð þú allan peninginn og ef báðir velja Y fær enginn peninginn… (Þetta var grunnurinn á bakvið sjónvarpsþáttinn Friend or Foe sem sýndur var í Bandaríkjunum á árunum 2002-2005). Hvatinn til þess að keppa verður meiri eftir því sem munurinn á milli verðlauna er meiri fyrir samkeppni en samvinnu. Einnig er áhugavert að niðurstöðurnar breytast einnig eftir því hvernig leikurinn er settur fram. Þegar fólki var sagt að það væri að taka þátt í „Wall Street leiknum“ þá var það mun líklegra til þess að fara í samkeppni heldur en þegar leikurinn var kallaður „Samfélagsleikurinn“. Ef leiðbeiningarnar notuðu orð eins og andstæðingur um hinn aðilann varð samkeppnin meiri heldur en ef leiðbeiningarnar töluðu um félaga. Orðin sem við veljum hafa nefnilega gríðarleg áhrif á aðgerðir og þess vegna skiptir framsetningin miklu máli.
Þegar fólk fékk að vita að það ætti að spila meira en eina umferð gegn sama aðila í leiknum jókst samvinnan einnig. Í slíkum aðstæðum aðlagar fólk sig að því hvernig aðrir hegða sér. Á meðan þú svíkur mig ekki þá held ég áfram að sýna samvinnu. Um leið og þú svíkur mig getur þú bókað að ég svík þig í næstu umferð líka. Slík gagnkvæmni getur verið bæði góð og slæm. Góðu fréttirnar eru að með því að sýna samvinnu fyrst getum við fengið aðra til þess að sýna samvinnu líka (þú hjálpar mér og ég hjálpa þér). Slæmu fréttirnar eru að neikvæð gagnkvæmni er yfirleitt mun sterkari en sú jákvæða. Ef ég hjálpa þér er líklegt að þú hjálpir mér, en ef þú svíkur mig er nánast öruggt að ég svík þig næst. Einstaklingur sem sýnir samvinnu er því yfirleitt fljótari að skipta yfir í samkeppni til þess að verja sig, heldur en keppnisaðilinn er að breyta sínu mynstri og það leiðir til ágreinings. Einnig er ljóst að aðilar voru líklegri til þess að fara í keppni (eða hefna sín) ef þeir töldu að aðgerðir hins aðilans hefðu verið vísvitandi.
Leiðir til lausna
Hvað er til ráða? Erum við dæmd að detta í samkeppni þar sem báðir tapa? Með því að vera meðvituð um okkar eigin munstur getum við haft meiri áhrif á útkomuna en ef að við erum ómeðvituð um þetta hjá sjálfum okkur og öðrum. Innan fyrirtækja skiptir máli að ávarpa þetta og leggja áherslu á samvinnu, liðsheild og sameiginleg markmið.
Einnig er hjálplegt að fara í smá sjálfsskoðun: Veltum fyrir okkur aðstæðum þar sem við erum líklegri til þess að byggja meira á samkeppni en samvinnu. Af hverju? Hvaða aðstæður eru það þar sem þú ert líklegri til þess að forgangsraða samvinnu? Hvað er ólíkt með þessum aðstæðum?
Að lokum er vert að muna að aðgerðir okkar hafa líka áhrif á aðra, veljum það sem við myndum frekar vilja sjá frá hinum aðilanum og höfum hugfast að ef að við dettum niður á lægra plan þá tapa báðir.
Sáttakveðja,
Lilja
Heimild: bls. 434-441 í Group dynamics eftir Donelson R. Forsyth, 6. útgáfa.