Síðasti pistill fjallaði um fyrstu tegund ágreinings innan hópa: Samkeppni eða samvinnu. Við höldum áfram að varpa ljósi á mismunandi tegundir ágreinings innan hópa og næsta málefni er eitthvað sem allir kannast við:
Ágreiningur um auðlindir
Ágreiningur af þessu tagi rís innan hópa þegar að eigin hagsmunir eru settir ofar hagsmunum hópsins, og hópurinn bregst við til þess að leiðrétta ójafnvægið.
Fyrsta tegundin sem kemur upp er klemman sem einstaklingar í hóp lenda í, þegar þeir deila sameiginlegri auðlind með hópnum en standa á sama tíma frammi fyrir freistingunni að taka meira en sinn hluta. Ef allir gera það þá eyðist auðlindin upp! Þarna endurspeglast einnig jafnvægið á milli skammtíma og langtíma hagsmuna.
Vísindamenn hafa rannsakað samspilið á milli einkahagsmuna og hagsmuna hópsins með tilraun sem kölluð er Uppskeruleikurinn (Harvesting game). Hópurinn fær aðgang að auðlind (t.d. að taka miða sem hægt er að skipta út fyrir pening) sem er endurnýjanleg og ekki eru sett takmörk á hvað má taka mikið úr pottinum, en því meira sem skilið er eftir í pottinum, því meira ávaxtast. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að aðilar viti að þeir verði að skilja eitthvað eftir til þess að auðlindin tæmist ekki, þá er það yfirleitt þannig að teknir eru út of margir miðar og auðlindin tæmist. Ef hópurinn fær tækifæri til þess að spila leikinn í annað sinn er útkoman hins vegar yfirleitt betri og meira hugsað um hagsmuni hópsins en eigin skammtímahagsmuni.
Einnig er hægt að leysa hluta vandans með samskiptum innan hópsins og að setja upp ákveðið regluverk eða samkomulag áður en farið er af stað. Það getur verið einfalt, eins og að þú þurfir að skrifa niður hvað þú tekur út, þannig að aðrir sjái hversu mikið er búið að taka úr pottinum hverju sinni. Aðhaldið sem það veitir hjálpar þá til við að gæta hagsmuna hópsins í heild.
Næsta tegund fjallar um hversu mikið við gefum til hópsins. Þá eru meðlimir hópsins beðnir um að leggja eitthvað til hópsins (tíma, vinnuframlag, fjármagn, skatta o.s.frv.), en meðlimir hópsins uppfylla ekki alltaf þessa skyldu. Dæmi eru t.d. þeir sem nota almenningsgarða, vegi eða aðra opinbera þjónustu, en greiða ekki skatta. Eða þegar hópur nemenda vinnur að verkefni en einn aðili mætir ekki og skilar engu framlagi en fær samt sömu einkunn og aðrir í hópnum. Laumufarþegar sem þessir geta valdið ágreiningi innan hópsins, en misjafnt er hversu mikið við látum það trufla okkur. Hegðun sem þessi getur líka verið smitandi, ef við upplifum að aðrir í hópnum séu ekki að gera sinn hluta, drögum við jafnvel úr okkar framlagi sjálf, sem kemur þá niður á hagsmunum hópsins í heild sinni. Andstæðan við þá hegðun, eða stöðugt framlag og samviskusemi, er einnig smitandi til hópsins og getur dregið úr vandamálinu. Áhugavert er þó að nefna að ef einstaklingur innan hópsins skilar áberandi meira framlagi en aðrir getur það einnig virkað letjandi á hópinn, þar sem að standardinn er svo hár að aðrir geta ekki náð honum!
Hópar aðgreina á milli einstaklinga sem að geta ekki komið með sitt framlag, og þeirra sem gætu það en velja að gera það ekki. Ef einstaklingur er veikur og skilar þess vegna ekki sínu eru áhrifin á hópinn minni heldur en þegar aðili hefur vísvitandi svikist undan því að skila sínu framlagi.
Eitt af verkfærum hópsins við að taka á sníkjudýrum eða þeim sem fljóta bara með er að setja ákveðinn kostnað á hegðunina sem talin er óæskileg, t.d. í formi gagnrýni, niðurlægingar, refsinga eða sekta. Fólk er jafnvel tilbúið að verða sjálft fyrir ákveðnum kostnaði ef það þýðir að þeir sem fljóta bara með fái einhvers konar refsingu.
Skipting á auðlindum
Þegar við hugsum um skiptingu á auðlindum eru mismunandi skoðanir um hvaða reglur eigi að gilda við skiptinguna, og hvað okkur finnst sanngjarnt. Án þess að fara of djúpt í hagfræðina að baki þessum sjónarmiðum, eru helstu dreifingarviðmiðin sem við styðjumst við þessi:
- Sanngirni (e. Equity) – Hópurinn verðlaunar einstaklinga í samræmi við framlag þeirra til hópsins.
- Jafnrétti (e. Equality) – Hópurinn kemur eins fram við alla einstaklinga, óháð framlagi þeirra til hópsins.
- Vald (e. Power) – Hópurinn útdeilir meira af auðlindum sínum til þeirra sem hafa meira vald, stjórn eða stöðu innan hópsins, umfram þá í lægri valdastöðum.
- Þörf (e. Need) – Hóurinn tekur tillit til mismunandi þarfa einstaklinga innan hópsins og útdeilir meiri auðlindum til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda, óháð því hversu mikið einstaklingar hafa lagt til hópsins.
Leiðir til lausna
Mismunandi skoðanir fólks á þessum sjónarmiðum er uppspretta fjölda ágreiningsmála sem taka á sig ýmsar birtingarmyndir, eins og glöggt má sjá ef t.d. er fylgst með umræðum
stjórnmálamanna. Einnig er áhugavert hvað gerist þegar við höfum ákveðnar væntingar um að niðurstaða sé byggð á t.d. sanngirnissjónarmiði en horft er fram hjá því og þörfin látin vega þyngra. Forvarnir ágreinings geta oft falist í því að stýra væntingum og þá er gott að ganga úr skugga um að allir séu á sömu blaðsíðu hvaða dreifingarviðmið verði notuð.
Það eru ekki bara hópar einstaklinga sem að nýta sér þessi viðmið, því að apar geta líka orðið hörundssárir er þeim finnst svindlað á sér! Ég mæli eindregið með því að horfa á þetta stutta (2:44 mín) myndband, sem útskýrir hvernig apar brugðust við þegar þeir upplifuðu óréttlæti, þegar greitt var fyrir sömu vinnu á ólíkan hátt.
Sáttakveðja
Lilja
Heimild: bls. 441-446 í Group dynamics eftir Donelson R. Forsyth, 6. útgáfa.