Eitt af lykilverkfærum sáttamiðlara við að hjálpa aðilum að leysa úr ágreiningi er að skilja eðli ágreinings. Það var Friedrich Glasl sem setti saman líkan um stigmögnun ágreinings (ef ekkert er að gert) og að hægt væri að skipta honum upp í 9 stig. Líkanið er mjög gagnlegt greiningartæki fyrir sáttamiðlara, og aðra er vinna með fólki í ágreiningi. Með því er hægt að kortleggja samskiptin og hvar aðilar eru staddir á ákveðnum tímapunkti og hvaða leið sé best til að grípa inn í.
Ágreiningslíkanið getur einnig virkað sem forvörn ef það er kynnt fyrir aðilum sem eiga í ágreiningi, því það eitt og sér getur leitt þeim fyrir sjónir þær afleiðingar sem eru mögulegar ef ekkert verður að gert.
Stig 1 - Afstaða
Fyrsta stigið er þegar aðilar koma að ákveðnu vandamáli sem þeir ná ekki að leysa. Oft liggja margar tilraunir að baki en aðilar þokast ekkert áfram. Hagsmunir og skoðanir verða að ákveðinni afstöðu sem aðilar standa fastir á og virðast ósamrýmanlegar. Hvor aðilinn um sig fær fólk til að flykkjast bak sinni afstöðu og oftar en ekki fylgir neikvætt umtal um gagnaðila. Viðleitni til lausnar ágreiningi skilar engu og leiðir oftar en ekki til enn meiri gremju og vonleysis. Aðilar telja sig alla af vilja gerða til að leysa deiluna og álítur það því sök gagnaðila að ekkert þokist áfram. Á þessum tímapunkti telur aðili oft að gagnaðili vilji ekki leysa ágreininginn eða einhverjar hvatir liggi að baki.
Mörkin yfir á stig 2 eru þegar báðir aðilar eru búnir að missa trúna á að leysa ágreininginn með hreinu og beinu samtali.
Stig 2 - Rökræður
Þegar aðilar virðast ekki lengur geta átt hreinskilið samtal er tilhneiging að umræðan þróist út í rökræður. Aðilar leita öflugri leiða til að knýja fram sín sjónarmið, sem oftast leiðir til þess að þeir loki sig af í ósveigjanlegri afstöðu. Umræðan er ekki lengur um afmarkað deiluefni heldur finnst aðilum að mannorðið sé nú í húfi. Umræðan færist nú frá því sem kalla má skynsamlegt samtal yfir í rökræður þar sem tilfinningarök og valdabarátta taka yfir og afstöðu hvors aðila um sig verður ekki haggað. Vaxandi vantraust leiðir til óöryggis beggja aðila.
Mörkin yfir á stig 3 eru þegar annar aðilinn sér ekki tilgang með áframhaldandi samtali og heldur áfram á sinni braut án þess að ráðfæra sig við gagnaðila.
Stig 3 - Aðgerðir, ekki orð
Á þessu stigi telja aðilar ekki lengur að frekari umræða leysi neitt og beina sjónum sínum að aðgerðum. Þeir líta nú á hvor annan sem keppinaut, og mikilvægasta markmiðið er að koma í veg fyrir að gagnaðili nái sínu fram. Tilfinningin um að sitja fastur í hjólförum eykst þar sem lítil sem engin munnleg samskipti eru milli aðila. Aðilar líta á sig sem fanga vegna ytri aðstæðna sem þeir geta ekki stjórnað. Aðilar hafa nú báðir tilhneigingu til að hafna allra ábyrgð á atburðarásinni, og þeir séu nú eingöngu að bregðast við gjörðum gagnaðila.
Mörkin yfir á stig 4 eru dulbúnar árásir á orðspor gagnaðila, almennt viðhorf hans, afstöðu og sambönd hans við aðra.
Stig 4 - Ímynd
Á þessu stigi snúast átökin ekki lengur um afmarkað málefni heldur hver vinnur og hver tapar. Nú er númer eitt að verja mannorð sitt. Aðilar draga upp neikvæða mynd af gagnaðila og litar það nú öll samskipti. Þessi ímynd gerir það að verkum að aðilar fara að gangast upp í þeim hlutverkum sem gagnaðili ætlar þeim. Nú reyna aðilar oft að fá fleiri með sér í lið og koma jafnvel opinberlega fram í þeim tilgangi. Nú hefur ágreiningurinn snúist upp í að hafa áhrif á gagnaðilann og ná yfirhöndinni í valdabaráttunni frekar en að ná sameiginlegri niðurstöðu. Nú horfa aðilar báðir svo á að orsök ágreiningsins sé ekki vegna ósamrýmanlegrar afstöðu heldur eigi rætur að rekja í persónu gagnaðila.
Mörkin yfir á stig 5 eru gjörðir sem leiða til þess að annar eða báðir aðilar verði opinberlega auðmýktir eða niðurlægðir (e. lose face). Til að mynda ef æru aðila er misboðið ítrekað og vísvitandi, jafnvel opinberlega, er líklegt að ágreiningurinn fari yfir á næsta stig.
Stig 5 - Auðmýking
Nú er ekki lengur litið svo á að ímynd og afstaða aðila séu annars vegar rétt og hins vegar röng heldur álita aðilar nú sjálfir að þeir tali fyrir því góða og sanna á meðan gagnaðili er tákn spillingar og illsku. Gagnaðili er ekki lengur pirrandi heldur er hann orðinn holdgervingur siðferðilegar spillingar. Algengt er á þessu stigi að aðili finni fyrir líkamlegum einkennum, t.d. ógleði, í návist gagnaðila. Allar uppbyggilegar aðgerðir gagnaðila eru álitnar tortryggilegar og eitt neikvætt atvik staðfestir hina slæmu ímynd. Þetta leiðir til þess að afar erfitt er að byggja upp gagnkvæmt traust. Allar tillögur verða fremur ýktar, t.d. til að sanna að ásetningur gagnaðila sé einlægur er hann beðinn um að biðjast opinberlega afsökunar á fyrri gjörðum eða yfirlýsingum. Samt sem áður óttast aðilar þá að slíkt sé túlkað sem veikleiki og skaði stöðu þeirra í augum almennings.
Mörkin yfir á stig 6 eru þegar aðilar fara að setja hvor öðrum úrslitakosti og skipulagðar hótanir.
Stig 6 - Skipulagðar hótanir
Þar sem engar aðrar leiðir virðast opnar grípa aðilar oft til hótana um skaðlegar aðgerðir, til þess að þvinga gagnaðila í rétta átt. Þessar skipulögðu hótanir skiptast í þrjú stig. Í því fyrsta koma aðilar fram með gagnkvæmar hótanir til að sýna fram á að þeir muni ekki hörfa. Aðili vill með þessu: a) draga athyglina að sjálfum sér og sínum kröfum, b) sýna fram á sjálfstæði og getu til að stjórna og c) fá gagnaðila til að verða við ákveðnum kröfum með því að hóta refsingu. Í öðru stigi eru hótanirnar áþreifanlegri, ótvíræðari og ákveðnari. Og í þriðja stigi eru hótanirnar settar fram sem úrslitakostir.
Afleiðing þessara aðgerða er sú að aðilar fara brátt að missa stjórn á atburðarrásinni, og fara í róttækar og fljótfærnislegar aðgerðir. Á þessu stigi verður ágreiningurinn og átökin milli aðila sífellt flóknari, erfitt er að átta sig á stöðunni og ómögulegt að stjórna. Þessu fylgir mikil streita, árásagirni, óróleiki og aukið flækjustig. Þegar svona er komið getur skriflegt samkomulag milli aðila ekki stoppað þá eyðileggingu sem farin er af stað.
Mörkin yfir í stig 7 er óttinn um afleiðingarnar ef hótanirnar yrðu framkvæmdar.
Stig 7 - Eyðilegging
Nú fara aðilar að trúa því að gagnaðili sé fær um eyðileggingu og að tryggja eigið öryggi verður mesta áhyggjuefnið. Nú er ekki lengur mögulegt að sjá fyrir sameiginlega lausn á málinu. Gagnaðili er nú einungis óvinur en ekki manneskja. Aðgerðir verða harðari og miða að því að refsa gagnaðila, t.d. með árásum á fjárhag eða stöðu. Allar hugmyndir um afleiðingar eru orðnar skakkar, aðilar eru oft tilbúnir að verða fyrir ákveðnum missi svo lengi sem gagnaðili verði fyrir meiri missi. Illgirni er nú orðin öflugur hvati. Engin raunveruleg samskipti eru á þessum tímapunkti, aðilar eiga í stríði og nú eiga lög og reglur ekki við. Aðilar átta sig á að hvorugur mun vinna, aðal markmiðið er að lifa af og minnka skaða.
Mörkin yfir í stig 8 eru árásir sem miðað er beint að gagnaðila, árásum sem ætlað er að brjóta hann.
Stig 8 - Niðurbrot gagnaðila
Á þessu stigi magnast allar árásir upp og miða að því að brjóta gagnaðilann niður. Samningsaðilar, fyrirsvarsmenn og stjórnendur eru allir skotmörk. Ráðist er á allt stuðningsnet og kerfið í kringum gagnaðilann. Hætta er á að upp komi innanbúðarátök og gagnaðili verði ófær um að verja sig. Megin markmiðið er nú að skjóta niður allar varnir og bíða eftir niðurbroti.
Mörkin yfir á stig 9 eru þegar sjálfsbjargarviðleitnin hverfur.
Stig 9 - Saman ofan í hyldýpið
Á þessu síðasta stigi er drifkrafturinn til að tortíma gagnaðila svo sterkur að sjálfsbjargarviðleitnin verður að engu. Gjaldþrot, fangelsisvist, líkamlegur skaði – ekkert skiptir máli lengur. Búið er að brenna allar brýr og ekki hægt að snúa aftur. Í þessu stríði eru engin saklaus fórnarlömb og engir hlutlausir aðilar. Eina áhyggjuefnið núna í kapphlaupinu ofan í hyldýpið, er að tryggja það að gagnaðilinn falli líka.
Efnið er byggt á líkani Friedrich Glasl og má lesa meira um það í bók hans Konfliktmanagement og grein Thomas Jordan á vef Mediation: https://www.mediate.com/articles/jordan.cfm
Líkanið er birtingarmynd þess þegar ágreiningur fær að vaxa og stigmagnast óáreittur. Það er vissulega von okkar sáttamiðlaranna að enginn þurfi að upplifa öll 9 stig ágreiningsins og hvetjum við alla til þess að leita aðstoðar til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi stigmögnun ágreinings.
Dagný Rut Haraldsdóttir, sáttamiðlari og lögfræðingur