Tvær spurningar sem fróðlegt er að velta fyrir sér til að koma í veg fyrir ágreining og verða betri í mannlegum samskiptum eru:
- Hver eru grundvallarmistökin sem við gerum þegar við hugsum um hegðun annarra?
- Og af hverju leiðir þetta til ágreinings?
Til að skoða þetta nánar langar mig að fjalla um hugtak úr félagssálfræði sem kallast grundvallar tileinkunarvilla (e. Fundamental Attribution Error), sem útskýrir hvernig við túlkum hegðun út frá innri eða utanaðkomandi þáttum, þ.e. er hegðunin vegna persónueinkenna, eða vegna áhrifa frá umhverfinu? Tileinkunarvillan er sú að við höfum sterka tilhneygingu til þess að útskýra hegðun annarra út frá persónueinkennum þeirra, frekar heldur en ytri áhrifum, og við gerum það nánast ómeðvitað. Þessi hugsanavilla er algeng, þar sem við þurfum sífellt að fylla í eyðurnar og draga ályktanir um það sem er að gerast í kringum okkur. En þegar kemur að okkur sjálfum erum við hins vegar líklegri til þess að benda á aðstæður eða utanaðkomandi þætti frekar en persónueinkenni (T.d. ég var sein af því að það var svo mikil umferð eða bíllinn minn bilaði, ekki af því að ég lagði of seint af stað).
Hvernig leiðir þetta til ágreinings?
Tileinkunarvillan getur leitt til ágreinings vegna þess að hvernig við útskýrum hegðun annarra hefur mikil áhrif á viðbrögð okkar. Við túlkum umhverfið okkar og upplifanir með sögunum sem við segjum sjálfum okkur um ástæðurnar sem liggja að baki. Hugsanaferlið sem fer af stað gerist á mjög skömmum tíma og er að mestu leyti algjörlega ómeðvitað hjá okkur. Um leið og við túlkum aðstæður þá vekur það hjá okkur ákveðnar tilfinningar. Ef að við t.d. túlkum hegðun annarra sem neikvæða fyrir okkur þá vekur það yfirleitt neikvæðar tilfinningar.
Og ef tilfinningin og aðgerðirnar eru neikvæðar þá hefur það áhrif á viðmót okkar (verðum kannski styttri í spuna), sem hefur þá áhrif á upplifun annarra á okkur – og verður þá kannski harkalegra í samskiptum næst sem getur leitt til ágreinings. Snjóboltinn er fljótur að fara að rúlla.
Við erum nefnilega því miður ekki góð í því að tileinka hegðun við réttar ástæður og erum fljót að lenda á óhagstæðum útskýringum þar sem við gerum ráð fyrir því að fólk stjórnist fyrst og fremst af persónulegum hvötum en ekki umhverfinu. Þegar kemur að því að útskýra eigin hegðun erum við mun líklegri til þess að setja umhverfið og utanaðkomandi aðstæður sem skýringuna.
Dæmi. Sigurður og Davíð standa í röð á kaffihúsi og bíða eftir kaffinu sínu. Sigurður horfir á hvernig Davíð, sem virðist vera að flýta sér, hellir óvart niður kaffinu yfir afgreiðsluborðið. Út frá grundvallar tileinkunarvillunni mun Sigurður gera ráð fyrir því að Davíð sé nú bara allt of mikið að flýta sér, þurfi að hægja á sér til þess að koma í veg fyrir svona atvik í framtíðinni. Ef hins vegar Sigurður hellir niður kaffinu, mun tileinkunarvillan benda til þess að hann útskýri eigin hegðun út frá því að kaffið hafi verið of heitt, lokið hafi ekki verið nógu vel á eða einhverjar aðrar utanaðkomandi aðstæður (sem voru að sjálfsögðu ekki honum sjálfum að kenna).
Annað sjónarhorn sem hjálpar okkur að skilja þetta betur er að það er auðveldara fyrir okkur að sjá HVAÐ fólk gerir heldur en HVERS VEGNA (ástæðurnar að baki). Hins vegar, þegar við dæmum eigin aðgerðir, þá vitum við nákvæmlega hverjar þessar ástæður eru. Þar af leiðandi trúum við því að aðrir geri slæma hluti vegna persónubresta þeirra en ef við gerum slæma hluti er það vegna þess að aðstæður kröfðust þess.
Að sjálfsögðu drögum við ekki alltaf neikvæðar ályktanir um fólk, ef að vinkona þín sem þú treystir vel og er alltaf stundvís, kemur ekki á réttum tíma að sækja þig, þá veltiru kannski fyrir þér hvort að eitthvað hafi komið fyrir. Hins vegar ef um er að ræða aðila sem áður hefur brugðist trausti þínu þegar kemur að því að mæta á réttum tíma erum við líklegri til að dæma atvikið út frá persónueinkennum, hún er óstundvís eða löt eða ber ekki virðingu fyrir tíma þínum.
Leið til lausna
- Við þurfum að vera meðvituð um eigin hugsanavillur og að við drögum kannski ekki alltaf réttar ályktanir. Með því að þekkja grundvallar tileinkunarvilluna verður auðveldara fyrir okkur að sjá hlutina út frá sjónarhorni hins aðilans (sem er alltaf kostur til þess að koma í veg fyrir óþarfa ágreining). Skilningur á því hvernig við bregðumst við getur hjálpað okkur frá því að gera sömu mistökin aftur og aftur.
- Höldum opnum huga. Spyrjum okkur spurninga og reynum að fresta dóminum þar til við höfum allar staðreyndir. Af hverju myndi rökrétt og skynsöm manneskja gera þetta? Með því að vera forvitin, spyrja spurninga og fresta því að draga ályktun um hegðunina þá getum við nálgast hlutina af meiri yfirvegun og komið í veg fyrir að snjóbolti ágreinings fari af stað.