fbpx

Mannlegi þátturinn og sáttamiðlun

Sáttamiðlun og sáttamiðlarskólinn

Þann 2. september 2020 fórum við (Lilja og Dagný Rut) í viðtal í Mannlega þáttinn á Rás 1, hjá Guðrúnu Gunnarsdóttur og Gunnari Hanssyni, til þess að ræða um sáttamiðlun og Sáttamiðlaraskólann. Þau tóku vel á móti okkur og var gaman að koma og fá tækifæri til þess að segja frá Sátt, félagi um sáttamiðlun og spennandi verkefninu Sáttamiðlaraskólanum. Síðustu ár hefur verið aukin eftirspurn hjá fólki sem vill læra sáttamiðlun og er það eitt af markmiðum Sáttar að auka þekkingu og fræðslu á sviði sáttamiðlunar. Lilja Bjarnadóttir og Dagný Rut Haraldsdóttir settu því á laggirnar Sáttamiðlaraskólann. Boðið hefur verið upp á tvö námskeið á ári, fyrst vorið 2019 og er því fjórða önnin að hefjast núna á haustdögum. Þar sem það fylltist á námskeiðið áður en það var auglýst formlega, var ákveðið að halda tvö námskeið samhliða, og enn eru nokkur laus pláss á haustönn. Einnig var ákveðið að bjóða upp á spennandi nýjung með því að fara til Akureyrar í október. Námið er í blandaðri kennslu með fyrirlestrum á netinu og svo verklegum æfingum í tíma, og er því bæði hagnýtt og hentar vel með vinnu.

Verkfæri sáttamiðlarans nýtast víða og er það fjölbreyttur hópur sem stendur að baki Sátt. Sátt er félag um sáttamiðlun og er sameiginlegur vettvangur þeirra sem vilja stunda sáttamiðlun og afla sér menntunar eða fræðslu á því sviði. Að félaginu stendur bæði áhugafólk um sáttamiðlun og fagfólk á ýmsum sérsviðum, s.s. félagsráðgjöf, guðfræði, kennslu, lögfræði, sálfræði og sérfræðingar úr fleiri fagstéttum.

Ekki missa af þessu tækifæri

Fyrir áhugasama er enn hægt að skrá sig á næsta námskeið inn á www.sattamidlaraskolinn.is  og vekjum við sérstaka athygli á námskeiðinu sem haldið verður á Akureyri í október.

Sáttakveðja
Lilja

Scroll to Top