fbpx

10 góðar spurningar fyrir sáttamiðlara

Áhrifarík samtöl byggja oft á því að spyrja réttu spurninganna. Hvort sem þú ert að leiða saman aðra aðila við lausn ágreinings, eða ert sjálf(ur) í samskiptum að leita lausna þá eru þessar spurningar góð byrjun til að komast nær sameiginlegum skilningi.

1. Ég er forvitin að heyra meira um...

Það er alltaf gott viðhorf í öllum samskiptum að temja sér forvitni og að skilja hina hliðina betur ætti alltaf að vera markmið okkar.

2. Sagan sem ég er að segja sjálfri mér núna er...

Við túlkum öll staðreyndir sem við höfum og setjum í söguform. Stundum er sú saga ekki rétt… Okkar innri saga er oft mótuð af eigin óöryggi eða fyrri upplifunum, og því getur verið að við túlkum það sem hinn aðilinn segir á óheppilegan hátt. Til að koma í veg fyrir misskilning af því tagi er því mikilvægt að opna sig og deila því sem við erum að hugsa.

3. Það er ekki mín reynsla / upplifun

Í stað þess að segja “það er ekki rétt hjá þér” er gott að leggja frekar áherslu á eigin reynslu eða upplifanir. Þegar aðilar rífast um ákveðið atriði getur sáttamiðlari sagt t.d. “Ég heyri að þú ert ekki sammála, getur þú sagt okkur hver þín reynsla eða upplifun er?”

4. Ég heyri að við erum bæði pínu föst á okkar skoðunum núna. Gætir þú sagt mér betur frá því hvers vegna þetta skiptir þig máli?

Sáttamiðlari gæti þá sagt “Ég heyri að þið eruð bæði með ákveðnar skoðanir á málinu. Gætuð þið sagt mér betur frá því hvers vegna þetta skiptir þig máli?”

5. Ég er að vinna út frá þessum forsendum og ályktunum.... 

Hverjar eru þínar ályktanir?

Við gerum oft þau mistök í samskiptum að halda að hinn aðilinn viti hvað við erum að hugsa, eða hvernig við komumst að núverandi skoðun. Oft getur mikill skilningur orðið við það að deila því hvernig við sjáum hlutina og hvaða forsendur við höfum fyrir þeirri skoðun, eða hvaða ályktanir við höfum dregið til þess að fylla upp í götin, því sjaldnast höfum við allar upplýsingarnar…

Á sama hátt getur líka verið gott að spyrja hvaða ályktanir hinn aðilinn hefur dregið…

6. Segðu mér af hverju þessi lausn virkar ekki fyrir þig...

7. Hjálpaðu mér að skilja...

8. Segðu mér meira...

Í stað þess að lenda í reipitogi á milli aðila með Já – Nei – Jú – Víst er gott að reyna að setja sig í spor hins aðilans og spyrja t.d.

9. Hvaða vandamál erum við að reyna að leysa?

Við finnum ekki sameiginlegar lausnir nema að við séum að leysa sama vandamálið og höfum sömu skilgreiningu á hvert vandamálið er.

10. Hver er þín framtíðarsýn?

Ef við sjáum markmiðin fyrir framtíðina á ólíkan hátt þá getur það skipt máli fyrir núverandi ákvarðanatöku.

Vonandi hjálpa þessar spurningar þér að komast nær lausnum. Mundu að frábærar spurningar eru einskis virði ef við hlustum ekki nægilega vel á svarið!

Scroll to Top